Innlent

Uggur í skipverjum

Uggur er í skipverjum um borð í flutningaskipinu Castor Star, sem hefur verið í Grundartangahöfn síðan í fyrradag. Þeir segjast ekki hafa fengið greidd laun og rýran kost vera um borð. Fulltrúi útgerðarfélagsins kom um borð í morgun og hefur fram eftir degi ráðið ráðum sínum með íslenskum lögfræðingi.

Skipið kom með súrál á Grundartanga í fyrradag. Þá kom eftirlitsmaður Sjómannafélags Íslands um borð til að kanna aðbúnað. Skipverjarnir sem eru frá Georgíu og Úkraínu sögðu þá honum að þeir hefðu ekki fengið greidd laun frá í september og auk þess hefðu þeir ekki fengið almennilegan mat í þrjár vikur. Athugun þá mun hafa leitt í ljós að matur var af skornum skammti og illa farinn og því stöðvuðu Sjómannafélagið og Alþjóðaflutningasambandið uppskipun í hádeginu í gær.

Fulltrúi Siglingastofnunar kom síðan um borð í morgun til að kanna skipið og pappíra því tengdu. Sú athugun stóð langt fram eftir degi. Samkvæmt heimildum fréttastofu leiddi hún í ljós kjöt- og fiskmeti í lokuðum hyrslum. Sá matur mun þó aðeins hafa verið aðgengilegur skipstjóra og auk þess nokkuð úldinn.

Birgir Hólm Björgvinsson, framkvæmdastjóri Sjómannafélagsins, sagði í fréttum okkar í gær að laun hefðu ekki fengist greidd síðan í september og skipverjar væru hræddir um að missa vinnuna og fara á svartan lista. Fulltrúar félagsins dvöldu um borð með skipverjum síðustu nótt. Fulltrúi útgerðarinnar kom til landsins snemma í morgun og fór um borð á níunda tímanum í fylgd íslensk lögfræðings. Birgir segir að þá hafi hitnað í kolunum

Skipverjar hafi nær allir, utan skipstjóra og tveggja annarra, lagt fram skriflega kröfu um nýja samninga sem byggðu á reglum Alþjóðaflutningasambandsins og neitað að tala við fulltrúa útgerðarinnar.

Yfirvélstjóri um borð í Castor Star segir að fulltrúi eiganda ræði líkast til fljótlega við áhöfn því annars verði ekki hægt að leysa það mál sem upp sé komið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×