Erlent

Fóstureyðingar brátt leyfilegar í Portúgal

MYND/AP

Fimm skoðanakannanir sem birtar voru í Portúgal í dag gefa til kynna að landsmenn muni aflétta banni við fóstureyðingum í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fer fram á sunnudaginn kemur. Samkvæmt könnunum segja 52 til 58 prósent landsmanna að þeir ætli að segja já við tillögum ríkisstjórnarinnar sem munu leyfa fóstureyðingu allt til tíundu viku meðgöngu.

Sem stendur er fóstureyðing aðeins leyfileg ef móðurinni var nauðgað, ef fóstrið er alvarlega fatlað eða ef heilsa móðurinnar er í hættu.

Aðeins þrjú önnur lönd í Evrópusambandinu leyfa ekki fóstureyðingar en það eru Pólland, Írland og Malta. Árið 1998 voru greidd atkvæði um sama málið en þá fékkst ekki nóg þátttaka til þess að gera niðurstöðu hennar bindandi. Alls þurfa fleiri en 50 prósent þjóðarinnar að taka þátt svo atkvæðagreiðslan verði bindandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×