Innlent

Skagfirðingar leggja til mótvægisaðgerðir

Skagfirðingar hafa þungar áhyggjur af þeim búsifjum sem sveitarfélagið verður fyrir við niðurskurð þorskkvóta. Byggðaráð sveitarfélagsins hefur því lagt fram lista yfir mótvægisaðgerðir sem það vill að ríkisvaldið grípi til og eru þær í 26 liðum. Lagt er til að háskólanám verði eflt í Skagafirði, að þar verði komið upp aðstöðu til kvikmyndagerðar og athugað verði hvort sveitarfélagið geti hýst netþjónabú.

Þá vilja Skagfirðingar opinber störf til sín og leggja til að Vinnumálastofnun flytji norður, Íbúðarlánasjóður á Sauðarkróki verði efldur og að Veiðimálastofnun færist í byggðalagið. Bent er á að á meðan hagvöxtur hafi verið á landsvísu hafi hann dregist saman á Norðurlandi vestra undanfarin ár og því komi þorskaflaskerðingin illa niður á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×