Erlent

Rússar rifta samkomulagi við NATO um takmörkun á herafla í Evrópu

Jónas Haraldsson skrifar

Rússar hafa tímabundið sagt sig úr samkomulagi sem takmarkar fjölda herdeilda og þungavopna á ýmsum stöðum í Evrópu. Vladimir Putin, forseti Rússlands, skrifaði undir lög þess efnis nú í morgun.

Samkomulagið á að takmarka fjölda skriðdreka, þungavopna og herflugvéla í Evrópu. Rússar segja Evrópuþjóðir ekki vilja staðfesta nýja útgáfu þess, sem gerð var 1999, og tekur á breyttum öryggisaðstæðum í Evrópu eftir lok Kalda stríðsins. Viðræður við NATO í síðasta mánuði um málið skiluðu engum árangri.

„Samkomulagið einn af hornsteinum öryggis Evrópu“

Talsmaður NATO sagði samkomulagið vera einn af hornsteinum öryggis Evrópu. Eitt af helstu ágreiningsmálunum aðilanna tveggja er þráfylgni NATO varðandi hvar rússneskar hersveitir mega safnast saman.

Samkomulagið meinar rússneska hernum að vera of nálægt landamærum ákveðinna ríkja og takmarkar þannig hreyfingar hersins á rússnesku landssvæði. Stjórnvöld í Moskvu vilja meina að þau þurfi að senda herdeildir að landamærum sínum vegna ótryggs ástands í sumum ríkjum fyrrum Sovétríkjanna.

Kólnandi samskipti Austurs og Vesturs

Ákvörðun Rússa á sér stað á sama tíma og samskiptum þeirra við Vesturlönd hefur hrakað verulega. Rússar eru ósáttir við útbreiðslu NATO til austurs og segja samtökin ógna áhrifasvæði sínu.

Þá hafa Vesturlönd látið í ljós áhyggjur vegna þess hversu tilbúnir Rússar eru til þess að nota gasbirgðir sínar í pólitískum tilgangi.

Einnig hefur mál Alexanders Litvinenko, njósnarans sem var myrtur í Bretlandi á síðasta ári, orðið til þess að samskipti Rússa við Breta hafa kólnað verulega.

Þá hafa deilur Rússa og Bandaríkjamanna um fyrirhugað eldflaugavarnarkerfi þeirra síðarnefndu í Austur-Evrópu ekki bætt ástandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×