Erlent

Íhaldsflokkurinn nálgast hreinan meirihluta

Breski Íhaldsflokkurinn mun fá 42 prósent atkvæða ef gengið yrði til kosninga í Bretlandi í dag. Verkamannaflokkurinn, sem verður væntanlega undir handleiðslu núverandi fjármálaráðherra Bretlands, Gordon Brown, fengi aðeins 29 prósent atkvæða. Þetta er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með síðan árið 1983.

Breska blaðið The Guardian skýrir frá þessu á vefsíðu sinni í dag. Könnunin var gerð aðeins viku eftir David Cameron, leiðtogi Íhaldsflokksins, var sakaður um að hafa neytt eiturlyfja á yngri árum, en þeim ásökunum neitaði hann ekki.

Fyrir aðeins mánuði síðan mældist Verkamannaflokkurinn með 32 prósenta fylgi og því er ljóst að breytinga er þörf í flokknum. Framámenn innan hans vonast nú til þess að einhver eigi eftir að bjóða sig fram gegn Brown í væntanlegum formannskosningum til þess að hann geti skilgreint sig og stefnu sína betur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×