Erlent

Fulltrúadeildin samþykkir að hefja heimflutning hermanna

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gær að hefja heimflutning hermanna frá Írak í haust, þrátt fyrir hótun Bush forseta um að beita neitunarvaldi gegn lagasetningunni.

Það var mjótt á mununum þegar atkvæði voru greidd um frumvarpið sem kveður á um að hefja skuli heimflutning hermanna 1. október og honum skuli lokið 1. apríl á næsta ári. ,Atkvæði féllu þannig: Já sögðu 218, nei sögðu 208.

Gert er ráð fyrir átta og hálfs milljarðs króna framlagi til að fjármagna stríðið, en uppfylli írösk stjórnvöld ekki ákveðin skilyrði skuli hefja heimflutning hermanna í haust. Sérstakar sveitir megi þó verða eftir, til að aðstoða við þjálfun íraskra hersveita og til að berjast gegn skipulögðum hryðjuverkasamtökum.

,,Við þurfum að bjarga mannslífum og við þurfum að endurreisa traustið á forystunni í Írak, en við verðum að lýsa yfir sigri fyrir hermennina okkar. Þeir hafa lokið sínu starfi, það er kominn tími til að fá þá heim," sagði Sheila Jackson-Lee, fulltrúi demókrata í fulltrúadeildinni.

Repúblikanar eru síður en svo sáttir við framgöngu demókrata í fulltrúadeildinni og hafa lýst yfir fullum stuðningi við Bush forseta beiti hann neitunarvaldinu.

,,Við þurfum ekki 535 hershöfðingja í Washington til að stjórna hersveitunum okkar, það er verkefni fagmanna. Það er kominn tími til fyrir demókratana að gera rétt og samþykkja frumvarp sem fjármagnar hersveitir okkar á hættusvæðum," sagði John Carter, fulltrúi repúblikana.

Fari svo að forsetinn neiti að undirrita lögin þarf tvo þriðju atkvæða í fulltrúadeildinni til að hnekkja því. Ólíklegt er að svo mikill meirihluti náist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×