Innlent

Kökur og brauð fyrir kindurnar

Sauðburður er hafinn á Hafralæk í Þingeyjarsýslu. Nýburarnir þar fá ekki bara gras að bíta heldur kökur og brauð einnig. Bóndinn á bænum segir terturnar njóta mestra vinsælda.

Fréttastofu Stöðvar 2 bar að garði á Hafralæk í Aðaldalnum um hádegisbil í þeim tilgangi að mynda einhver fyrstu lömb ársins. Stóð þá yfir málsverður hjá ferfætlingunum á bænum en fóðrið vakti athygli. Í stað gömlu góðu heytuggunnar spreðaði Ásgrímur Þórhallsson bóndi brauðmeti á alla kanta við gríðarlegan fögnuð kindanna sinna, smárra sem stórra. Vægast sagt er óvenjulegt að sauðkindin sé alin á slíku.

Ásgrímur hefur um margt sérstöðu sem frístundasauðfjárbóndi. Hann til dæmis markar ekki fé sitt eins og lög gera ráð fyrir, sér engan jákvæðan tilgang með því.

Það verður ekki annað séð en að bústofninn sé ánægður með lífið og tilveruna og matseðlarnir eru mismunandi eftir dögum. Frjósemin er ágæt hjá Hafralækjarbóndanum um tvö lömb á hverja á. 14 voru bornar í dag hjá honum en almennt hefst ekki sauðburður af krafti í sveitum fyrr en upp úr miðjum maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×