Erlent

Sprengdi upp bakarí

Samtökin Heilagt stríð og al-Aqsa-herdeildirnar hafa bæði lýst yfir ábyrgð á sjálfsmorðsárás sem framin var í bænum Eilat í Ísrael í dag. Fjórir létu lífið í tilræðinu, sem er það fyrsta í landinu í níu mánuði.

Rauðahafsbærinn Eilat hefur hingað til sloppið við átök Ísraela og Palestínumanna, þar til í morgun þegar maður gyrtur sprengjubelti gekk inn í bakarí og sprengdi sig og þrjá aðra í loft upp. Sprengingin var svo öflug að líkamsleifar fórnarlambanna þeyttust út á götu. Samtökin Heilagt stríð og al-Aqsa-herdeildirnar lýstu strax ábyrgð á tilræðinu og sögðu það framið til að þjappa Palestínumönnum saman gegn Ísraelum í stað þess að þeir berðust hverjir við aðra. Tilræðismaðurinn var 21 árs að aldri og kom frá Gaza-ströndinni. Vinir hans og ættingjar hittust fyrir utan heimili hans í dag og lofuðu árásina.

Ísraelsk stjórnvöld fordæmdu tilræðið í dag og sögðu að með því væri vopnahléinu sem ríkt hefur á Gaza síðastliðna tvo mánuði stefnt í hættu. Ehud Olmert forsætisráðherra hét því að herða öryggisráðstafanir en stillti sig þó um að segja að árásarinnar yrði hefnt.

Þetta er fyrsta sjálfsmorðsárásin í Ísrael í níu mánuði en í apríl í fyrra stóð Heilagt stríð fyrir hermdarverki í Tel Aviv sem kostaði 11 mannslíf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×