Erlent

Verstu flóð í hálfa öld

Guðjón Helgason skrifar

Nærri milljón íbúar í Tabasco-héraði í Suður-Mexíkó hafa misst heimili sín í einhverjum mestu flóðum í landinu í hálfa öld. Um 80% héraðsins eru undir vatni. Mikilli rigningu er spáð á svæðinu um helgina.

Mörghundruð þúsund íbúar hafa flúið svæðið. Þeir sem ekki hafa komist burt sitja ofan á þökum sökkvandi húsa sinna og bíða eftir hjálp. Björgunarmenn reyna hvað þeir geta til að koma fólki til hjálpar. Vitað er að minnst einn íbúi á svæðinu hefur drukknað og óttast að fleiri týni lífi.

Héraðshöfuðborgin Villahermosa er nærri því mannlaus - fólk flúði þaðan eftir að áin Grijalva flæddi yfir bakka sína á fimmtudaginn og nær öll borgin fór undir vatn.

Felipe Calderon, forseti Mexíkó, hefur heitið íbúum í Tabasco opinberum fjárstuðningi. Flugherinn flytur hjálpargögn til nauðstaddra. Ástandið í Tabasco-héraði sé alvarlegt. Þetta sé ekki aðeins verstu náttúruhamfarir þar heldur síðustu áratugi í landinu öllu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×