Innlent

Gagnrýna sölu sveitarfélaga í orkufyrirtækjum

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Andstæðingar sjálfstæðismanna í sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu gagnrýna þá harðlega fyrir sölu á hlut þeirra í orkufyrirtækjum. Mun meira hefði verið hægt að fá fyrir þessa hluti nú.

Minnihluti borgarstjórnar var afar ósáttur við ákvörðun sjálfstæðismanna í haust um sölu á ráðandi hlut borgarinnar í Landsvirkjun. Í fréttum okkar í gær kom fram að verðmæti Landsvirkjunar ætti að vera fjórfalt hærra nú, miðað við verðið sem ríkið fékk fyrir sinn hlut í Hitaveitu Suðurnesja.

Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi Samfylkingar segir að fyrir ráðandi hlut borgarinnar í Landsvirkjun síðastliði haust hafi að mestu fengist skuldabréf sem ekki sé hægt að selja.

Dagur segir að greiningaraðilar hafi sett spurningamerki við verðið sem borgin fékk fyrir Landsvirkjun. „Það má því segja að íbúar í Reykjavík hafi orðið af milljörðum á milljarða ofan."

Fyrir rúmu ári seldi Sveitarfélagið Álftanes hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja. Fyrir þann hlut fengust rúmar 27 milljónir.

Sigurður Magnússon bæjarstjóri sveitarfélagsins Álftaness segist mjög ósáttur við þá sölu en hann telur bæinn hafa tapað 70 milljónum.

Átök voru milli Sjálfstæðismanna sem vildi selja og Á-listans sem ekki vildi selja. Sigurður segir það verð sem fékkst óásættanlegt og hann mun láta kanna hvernig staðið var að matinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×