Körfubolti

Mikill halli á rekstri KKÍ

Mynd/Daníel Rúnarsson

Fjármálastaða körfuknattleikssambands Íslands er fjarri því að vera í lagi sagði formaður sambandsins á ársþingi þess sem nú stendur yfir á Flúðum. Rekstrarhalli sambandsins á síðasta ári voru 14 milljónir króna.

Slæm fjárhagsstaða KKÍ hefur hvað sýnilegast komið fram í samdrætti í landsliðsstarfi, en unglingalandsliðin í körfubolta hafa þurft að aflýsa þátttöku á stórmótum erlendis vegna fjárskorts.

Hannes Jónsson formaður KKÍ sagði í opnunarræðu sinni á þinginu í gær að það væri því miður nauðsynlegt að draga saman seglin á þeim vetvangi. Ljóst væri að ef ekki nást fleiri aðilar til samstarfs og ef ríkisvaldið fer ekki að koma enn meir að rekstri landsliða, mun landsliðsstarf vera í lágmarki næstu misserin.

Hannes bendir á að KKÍ er rekið að stærstum hluta fyrir sjálfsaflafé. Þessu sé öfugt farið á norðurlöndunum, þar sem sérsambönd eru rekin að mestum hluta fyrir opinbert fé. Hann sagði einnig að "á tyllidögum og rétt fyrir kosningar séu stjórnmálamenn á þeirri skoðun að íþróttir og afreksmenn í íþróttum sé nauðsynlegur partur af því að vera þjóð á meðal þjóða og að forvarnargildið sé ótvírætt. "

Og Hannes spyr af hverju stjórnmálamenn hafi ekki stigið stærri og hraðari skref í átt til íþróttahreyfingarinnar og sérsambandanna og veitt myndarlegt fjármagn af ríkisfé.Hann hvatti að lokum stjórnmálamenn til þess að standa saman að því að auka til muna framlag ríkisins til íþróttamála.

Nokkrar breytingatillögur voru samþykktar á ársþinginu í dag og þar má nefna að liðum í Iceland Express deild kvenna verður fjölgað úr 6 í 8 á næstu leiktíð, allir leikir í efstu deildum karla og kvenna skulu spilaðir á parketi frá og með keppnistímabilinu 2010-11 og þátttökugjöld munu hækka á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×