Tónlist

Danspönksveitin the Rapture á leið til landsins

Danspönksveitin the Rapture er væntanleg til landsins og heldur tónleika á skemmtistaðnum NASA við Austurvöll 26. júlí næstkomandi.

Sveitin er frá New York og er talin ein af upphafsmönnum danspönkbylgjunnar sem hefur verið áberandi í rokktónlist undanfarin ár.

,,Færri komust að en vildu þegar sveitin tróð upp á Airwaves um árið, en þeir sem voru þeirrar gæfu aðnjótandi að sjá fjórmenningana fremja listir sínar á sviði Gauks á Stöng hafa ítrekað vitnað um að sjaldan hafi stuðkvarðinn verið jafn nálægt því að fara yfir hættumörk. Það er því í ljósi sælla minninga og fjölda áskorana sem Hr. Örlygur stendur fyrir endurkomu The Rapture á íslenska grund." segir í fréttatilkynningu frá Hr. Örlygi sem flytur sveitina inn.

Tónleikarnir eru liður í tónleikaferðalagi sveitarinnar til að kynna nýjustu breiðskífu sína, Pieces of the People We Love, sem kom út á síðasta ári. Hún hefur hlotið fádæma viðtökur gagnrýnenda og almennings og hafa lög af henni á borð við „Get myself into it", „Whoo! Alright-Yeah… Uh huh" og nú síðast „Pieces of the people we love" hljómað á útvarpsstöðum og dansgólfum skemmtistaða landsins í vetur.

Miðasala hefst á morgun, föstudaginn 25. maí í verslunum Skífunnar, völdum verslunum BT og á Midi.is. Miðaverð er 3.900 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.