Innlent

Kári býðst til að kortleggja erfðamengi almennings

Kári Stefánsson.
Kári Stefánsson.

Innan tíðar mun Íslensk erfðagreining bjóða Íslendingum upp á nýstárlega þjónustu. Fólk mun geta sent lífsýni til fyrirtækisins og fá í staðinn greiningu á um 500 þúsund breytilegum svæðum í erfðamengi sínu. Með tilheyrandi hugbúnaði sem gerður verður aðgengilegur almenningi getur fólk síðan reiknað út líkur á sjúkdómum og kanna uppruna sinn nánar.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði í viðtali í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag að fyrirtækið hyggðist bjóða upp á þessa þjónustu innan tíðar, líklega í lok október.

„Þá getur þú með aðstoð hugbúnaðar sem verður veittur aðgangur að, leitað uppi hvort að þú ert með breytur í erfðavísum sem auka líkur á því að þú fáir hina ýmsu sjúkdóma, eða hvort þú getir staðist þá sömu," sagði Kári. „Þetta býður líka upp á þann möguleika að kanna uppruna þinn á nákvæmari hátt en áður."

Kári sagði að leiða mætti að því rök að svona þjónusta sé í takt við það sem sé að gerast í tilverunni almennt nú um stundir. Hann sagði fólk leita sífellt meira eftir upplýsingum um sjálfan sig. Að sögn Kára er ekki komið á hreint hvað þessi þjónusta eigi að kosta. Hann sagði þó að hún yrði ekki ódýr.

„Verðið verður það viðráðanlegt að reikna má með því að mjög stór hundraðshluti fólks sem vill gera þetta hafi ráð á því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×