Innlent

Guðmundur í Byrginu kærir þjófnað

Andri Ólafsson skrifar
Guðmundur Jónsson, kenndur við líknarfélagið Byrgið.
Guðmundur Jónsson, kenndur við líknarfélagið Byrgið.

Guðmundur Jónsson, kenndur við líknarfélagið Byrgið, kærði í byrjun nóvember þjófnað á munum sem hann segir tilheyra Byrginu. Kæran kom í kjölfarið á því að karlmaður fór upp á Efri-Brú, þar sem Byrgið var rekið áður en því var lokað vegna gruns um fjármálamisferli, og fékk afhenta muni og varning sem þar var geymdur í læstri geymslu.

Það var starfsfólk Götusmiðjunnar, sem nú er til húsa á Efri-Brú, sem afhenti varninginn en það var gert í góðri trú um að maðurinn ætti munina sem hann óskaði að fá afhenta.

Skömmu síðar kom Guðmundur Jónsson, sem var forstöðumaður á Efri-Brú þegar Byrgið var þar til húsa, og kærði manninn sem fékk munina afhenta fyrir þjófnað.

Lögregla lýsti eftir manninum og þeim munum sem hann hafði í fórum sínum. Skömmu síðar fannst hann á Sauðárkróki fyrir tilviljun. Lögreglan þar hafði þá af honum afskipti vegna ökulags og kom þá í leiðinni auga á nokkra af þeim munum sem auglýst var eftir í bíl mannsins. Restin fannst svo á heimili hans í bænum.

Lögreglan á Selfossi staðfestir að kæra hafi verið lögð fram vegna málsins og hlutirnir sem afhentir voru á Efri-Brú í byrjun nóvember hafi fundist á Sauðárkróki.

Vísir hefur hins vegar heimildir fyrir því að erfitt kunni að vera að leiða málið til lykta þar sem erfitt geti reynst að sanna hver sé eigandi þeirra muna sem málið snýst um. Éins og áður hefur komið fram var bókhald reksturs Byrgisins í molum og nótur og reikningar eru ekki til fyrir mörgu af því sem keypt var til rekstursins.

Munirnir sem um ræðir eru metnir, samkvæmt heimildum Vísis, á um tvær milljónir króna en þar á meðal er hljóðkerfi, hljómflutningstæki og fleira í þeim dúr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×