Erlent

200 billjóna króna fjárlagafrumvarp

Fimmtungur til hermála Þingmenn ná sér í eintak af frumvarpinu í þinghúsinu í Washington í gær.
Fimmtungur til hermála Þingmenn ná sér í eintak af frumvarpinu í þinghúsinu í Washington í gær. MYND/AP

George W. Bush Bandaríkjaforseti lagði í gær fjárlagafrumvarp sitt í ár fyrir Bandaríkjaþing. Þau hljóða upp á útgjöld upp á alls 2.900 milljarða Bandaríkjadala, andvirði um 200 billjóna króna eða 200.000 milljarða.

Til samanburðar má nefna, að íslensku fjárlögin hljóða upp á um þúsund sinnum lægri fjárhæð, sem gerir fjárlög beggja landa sambærileg sem hlutfall af íbúafjölda, enda eru íbúar Bandaríkjanna þúsund sinnum fleiri en Íslendingar.

Þetta fjárlagafrumvarp er það fyrsta sem Bush leggur fram fyrir þing þar sem demókratar ráða meirihlutanum í báðum deildum. Í því leggur forsetinn til milljarða dala viðbótarútgjöld til hermála og niðurskurð á mörgum sviðum til að nálgast það markmið að koma ríkisfjármálunum í jafnvægi á næstu fimm árum. Það vill hann þó gera án þess að snerta við skattalækkununum sem hann áður var búinn að hrinda í framkvæmd í áföngum.

Kostnaðinum við að gera skattalækkanirnar frá fyrra kjörtímabili Bush varanlegar, sem svarar um 110.000 milljörðum króna, vill hann deila á næstu tíu fjárlagaár. Samkvæmt frumvarpinu hyggst hann skera niður 78 milljarða dala, andvirði um 5.400 milljarða króna, í útgjöld til heilbrigðismála á næstu fimm árum.

Útgjöld til hermála nema eins og gefur að skilja stórum hluta fjárlaganna. Bush fer fram á að til þeirra verði varið um fimmtungi allra fjárlaganna, 624,6 milljörðum dala eða 43.100 milljörðum króna, á fjárlagaárinu 2008 sem hefst 1. október í haust. Á yfirstandandi ári eru hermálaútgjöldin 600,3 milljarðar dala, 41.420 milljarðar króna.

Eftir framlagningu frumvarpsins, sem borið er inn á borð þingmanna í fjórum þéttskrifuðum bindum, hefst mánaðalangt ferli sem þingmeirihluti demókrata hefur gefið skýrt til kynna að muni nýta til að koma að margvíslegum breytingum.

„Fjárlagafrumvarp forsetans er uppfullt af skuldahít og blekkingum, úr tengslum við raunveruleikann og heldur áfram að stefna Bandaríkjunum í ranga átt,“ sagði Kent Conrad, formaður fjárlaganefndar öldungadeildarinnar, en hann er demókrati.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×