Innlent

Bæjarstjóri á „flæmingi“ undan lögunum

Fyrirhugað skipulag á Álafosssvæðinu - smellið á myndina til að sjá hana stóra
Fyrirhugað skipulag á Álafosssvæðinu - smellið á myndina til að sjá hana stóra

Varmársamtökin segja að bæjarstjóri Mosfellsbæjar hafi farið með rangt mál í fréttum í gærkvöldi varðandi mat á umhverfisáhrifum af tengibraut um Álafosskvos. Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóri sagði að vegna úrskurðar umhverfisráðherra um náttúruminjaskrá, hafi bænum ekki borið skylda til að óska eftir umsögn Umhverfisstofnunar um umhverfisáhrif.

Þetta segja Varmársamtökin rangt. Í fréttatilkynningu frá samtökunum segir að bæjarstjórn Mosfellsbæjar hafi ekki leitað eftir lögbundinni umsögn Umhverfisstofnunar um tengibrautina í Álafosskvos. Bæjarstjórinn sé að vísa í úrskurð Umhverfisráðuneytisins varðandi kæru samtakanna á ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin í Álafosskvos þyrfti ekki að fara í umhverfismat.

Samtökin segja bæjarstjóra beita fyrir sig áliti lögmanns til að láta líta út fyrir lögmæti framkvæmdanna. Umhverfisstofnun hafi vakið athygli á því að bærinn hafi ekki gætt lagaákvæða sem gilda um framkvæmdir á svæðum sem eru á Náttúruminjaskrá.

Þá kemur fram í fréttatilkynningunni að nú þegar renni aur og drulla vegna framkvæmdanna út í Varmá. Eftirlit sé ekkert og hætta á að fiskur og gróður kafni í ánni. Samtökin hafa gert Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis viðvart.

Samtökin segja landröskun og gröft í Álafosskvos vera lögleysu og siðferðislega óverjandi, enda sé markmið laga og reglugerða á sviði umhverfis-og skipulagsmála að vernda náttúruperlur og menningarsöguleg svæði.

Varmársamtökin eru samtök íbúa í Mosfellsbæ sem voru stofnuð til verndar Varmársvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×