Innlent

„Meint misnotkun“ á Framkvæmdasjóði aldraðra

Aðstandendafélag aldraðra er ósátt við hvernig heilbrigðisráðherra hefur ráðstafað fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra.
Aðstandendafélag aldraðra er ósátt við hvernig heilbrigðisráðherra hefur ráðstafað fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra. MYND/GVA

Aðstandendafélag aldraðra - AFA - segir að heilbrigðisráðuneytið og ráðherrar þess hafi ráðskast með fé Framkvæmdasjóðs aldraðra til óskyldra hluta. Þannig hafi þeir beinlínis stuðlað að því ástandi sem nú ríkir í hjúkrunar- og dvalarmálum aldraðra.

Fram hefur komið að gerð og dreyfing kynningarbæklings heilbrigðisráðherra um áherslur í öldrunarmálum var kostuð af sjóðnum.

Félagið krefst þess að heilbrigðisráðherra leggi þegar í stað fram allar upplýsingar um greiðslur úr sjóðnum til annarra verkefna en nýbygginga og endurbóta á hjúkrunar- og dvalarheimilum.

Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að frá árinu 1992 hafi nærri helmingi af skatttekjum sjóðsins verið varið í önnur verkefni en byggingu hjúkrunarheimila, eða nærri fimm milljörðum króna. Félagið telur að fyrir þá upphæð hefði mátt leysa þann brýna vanda sem nú blasir við vegna skorts á hjúkrunarrýmum.

Svo virðist sem stjórn sjóðsins ráði litlu þar sem allar ákvarðanir um útgjöld eru teknar í ráðuneytinu, og aðilar sem eru á meðal stærstu styrkþega sjóðsins, sitji í stjórn sjóðsins sjálfs.

Félagið telur brýnt að endurskoða lög um málefni aldraðra og Framkvæmdasjóð aldraðra í ljósi meðferðar á fjármunum sjóðsins. Skattgreiðendur og aldraðir eigi heimtingu á að fá þessar upplýsingar og það sé hlutverk Alþingis að hafa forgöngu um að ganga á eftir þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×