Erlent

MySpace eyðir vefsíðum kynferðisafbrotamanna

Jónas Haraldsson og Steinunn Sigurðardóttir skrifar
Vefsíða MySpace er gríðarlega vinsæl úti um allan heim og ekki síður hér á Íslandi.
Vefsíða MySpace er gríðarlega vinsæl úti um allan heim og ekki síður hér á Íslandi. MYND/AFP

Stjórnendur tengslavefsins MySpace sögðu í gær að þeir hefðu borið kennsl á og eytt vefsíðum þúsunda dæmdra kynferðisafbrotamanna. Þetta gera eigendur MySpace til þess að vernda yngri notendur. MySpace tilkynnti um þetta aðeins degi eftir að átta bandarískir saksóknarar kröfðust þess að tengslavefurinn léti af hendi upplýsingar um vefsíður kynferðisglæpamanna og eyddi þeim síðan. Samtals eru 175 milljón manns með vefsíðu á MySpace.

Öryggisfulltrúi MySpace, Hemanshu Nigam, sagði við fjölmiðla „Við umberum ekki dæmda kynferðisafbrotamenn á tengslavef okkar." Hann sagði jafnframt að MySpace mætti lögum samkvæmt ekki láta upplýsingar af þessu tagi af hendi.

Nokkur mál hafa komið upp þar sem kynferðisglæpamenn hafa komist í samband við ungt fólk í gegnum MySpace. Fjölskyldur nokkurra ungra stúlkna sem urðu fyrir árásum í kjölfarið fóru í mál við tengslavefinn í janúar á þessu ári fyrir að vernda unga notendur sína ekki betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×