Innlent

Varmársamtök fordæma skemmdarverk

Skemmdarverk voru unnin á sjö vinnuvélum fyrir ofan Álafosskvosina í Mosfellsbæ í nótt, rúður voru brotnar og rándýr stýribúnaður í sumum þeirra gjöreyðilagður. Talið er að tjónið skipti milljónum en ekki er vitað hverjir standa að verki. Varmársamtökin fordæma skemmdarverkin og segjast á engan hátt hafa komið nálægt þeim. Þau hafa nú kært framkvæmdirnar á svæðinu til lögreglu.

Það var í morgun sem starfsmenn hjá verktakafyrirtækinu Magna ehf. sáu skemmdarverkin sem unnin voru í nótt á sjö vinnuvélum, bæði gröfum og jarðýtum. Fjórar vinnuvélar eru óstarfhæfar vegna skemmda. Ekki er vitað hverjir frömdu skemmdarverkin en lögreglan rannsakar málið.

Hörður Gauti Gunnarsson, framkvæmdastjóri hjá verktakafyrirtækinu Magna ehf. sem stendur að framkvæmdunum fyrir ofan Álafosskvosina, segir tjónið gríðarlegt. Talið er að það skipti nokkrum milljónum króna. Tilfinnanlega sé tjónið mest í vinnutapinu.

Verið er að reisa Helgafellshverfi fyrir ofan Álafosskvosina og unnið er að framkvæmdum tengdu því. Varmárssamtökin hafa mótmælt framkvæmdunum harðlega að undanförnu. Sigrún Pálsdóttir, stjórnarmaður í samtökunum, segir Varmársamtökin ekki á nokkurn hátt hafa komið nálægt skemmdarverkunum. Hún segir samtökin fordæma skemmdarverkin og segir hræðilegt að þetta hafi átt sér stað.

Varmársamtökin hafa lagt inn kæru til lögreglu vegna framkvæmdanna því þau telja verktakana ekki hafa tilskilin leyfi. Forsvarsmenn verktakafyrirtækjanna Magna ehf. og Helgafellsbyggðar ehf. á svæðinu segjast vera með fullt leyfi til framkvæmda frá bæjaryfirvöldum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×