Erlent

Sarkozy farinn til fundar við Merkel

Nicolas Sarkozy sór embættiseið sem forseti Frakklands í dag. Í innsetningarræðu sinni kvaðst hann ætla að efla þjóðareiningu og blása í glæður efnahagslífsins. Búist er við að nýi forsetinn skipi ríkisstjórn sína á morgun.

Setningarathöfnin fór fram í Elysses-höll í París en hún verður heimili Sarkozy og fjölskyldu hans næstu fimm árin hið minnsta. Í ræðunni sem Sarkozy hélt við þetta tækifæri hét hann því að sameina frönsku þjóðina á ný og koma á ýmsum breytingum sem gerðu Frakkland sterkara, bæði í efnahagslegu og stjórnmálalegu tilliti. Í utanríkismálum kvaðst nýi forsetinn ætla að setja mannréttinda- og loftslagsmál á oddinn. Loks óskaði hann landsmönnum velfarnaðar.

Að ræðu sinni lokinni gekk Sarkozy strax að konu sinni Ceciliu og kyssti hana en með því hafa þau eflaust viljað slá á þrálátan orðróm um að hún styddi eiginmann sinn ekki heilshugar. Ekki verður þó betur séð að blíðuhótunum hafi verið tekið fálega. Síðdegis ók svo Sarkozy upp eftir Champs Elysses-breiðgötunni og lagði svo blómsveig að leið óþekkta hermannsins undir Sigurboganum. Að því búnu hélt hann til Þýskalands til fundar við Angelu Merkel, kanslara. Markmið þeirrar ferðar er ekki síst að undirstrika mikilvægi sambands þessara tveggja öflugustu ríkja álfunnar og finna lausn á vanda Evrópusambandsins eftir að stjórnarskrársáttmála þess var hafnað fyrir tveimur árum. Á morgun er svo reiknað með að Sarkozy geri íhaldsmanninn Francois Fillon að forsætisráðherra sínum og á föstudag verði aðrir ráðherrar skipaðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×