Erlent

Játaði kúrdamorð yfir kaffibolla

Óli Tynes skrifar
Saddam Hussein.
Saddam Hussein.

Þegar Bandaríkjamenn yfirheyrðu Saddam Hussein fóru þeir mjúku leiðina. Alríkislögreglumaðurinn George Piro eyddi fimm klukkustundum á dag í sjö mánuði við að yfirheyra einræðisherrann.

Þeir drukku saman kaffi og reyktu vindla frá Kúbu á veröndinni fyrir aftan fangaklefa Saddams. Piro talar arabisku reiprennandi.

Hann segir að þeir hafi spjallað um heima og geima, meðal annars um íþróttir og ritverk Saddams. Alríkislögreglumaðurinn segir að þegar þeir loks kvöddust hafi Saddam tárast.

Í nýrri bók eftir Ron Kessler segir Piro að þessi aðferð hafi skilað góðum árangri. Yfir kaffibolla hafi Saddam meðal annars viðurkennt að hafa myrt 180 þúsund kúrda og að hafa reynt að koma sér upp kjarnorkuvopnum.

Hann hefði líka látið umheiminn halda að hann ætti gereyðingarvopn. Það hefði þó aðallega verið til að halda Írönum í skefjum.

Saddam upplýsti einnig að þrátt fyrir þrálátar fréttir þar um hafi hann aldrei notað tvífara. "Enginn gat leikið mig," sagði hann.

Hann viðurkenndi líka að hafa bruggað sjálfum sér launráð, til þess að sjá hverjir fengjust til þess að taka þátt í því. Þeir hinir sömu voru teknir af lífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×