Erlent

Gaman í vinnunni

Óli Tynes skrifar
Bannað.
Bannað.

Það má ekki teikna mynd af krónprinsi Spánar í samförum við eiginkonu sína. Spænskur skopmyndateiknari og textahöfundur hans hafa verið sektaðir um 3000 evrur hvor fyrir það tiltæki. Það eru rúmlega 260 þúsund krónur.

Myndin birtist á forsíðu grínblaðs. Tilefnið var að sósíalistastjórn Spánar ætlar að skenkja öllum hjónum landsins 2500 evrur í verðlaun fyrir hvert barn sem þau eignast. Á teikningunni mátti sjá Felipa krónprins í rúminu með krónprinsessunni.

Og hann segir við hana; "Veistu, ef þú verður ófrísk þá er þetta það næsta sem ég hef komist því að vinna." Dómarinn sagði að þetta væri argasta móðgun við konungsfjölskylduna og að grínararnir skyldu fara í 10 mánaða stofufanagelsi ef þeir greiddu ekki sektina.

Blaðið var innkallað. En það hafði líka verið sett á netið og málaferlin urðu til þess að margfallt fleiri fóru að skoða það en ella. Teiknarinn og textahöfundurinn ætla að áfrýja á grundvelli prent- og tjáningarfrelsis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×