Erlent

Læknar ákváðu að Díönu yrði ekki bjargað

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Augnablikinu þegar læknar tóku ákvörðun um að hverfa frá lífgunartilraunum á Díönu prinsessu var lýst við réttarrannsókn á dauða prinsessunnar í dag. Hjarta hennar hætti að slá eftir að sjúkraliðar náðu henni úr flaki Benz bifreiðarinnar í Alma göngunum í París að morgni 31. ágúst 1997.

Svæfingarlæknirinn Daniel Eyraud sagði að sjúkraliðar hefðu tekið „sameiginlega ákvörðun" um að hætta tilraunum við að fá hjarta hennar til að slá aftur, eftir uppskurð sem átti að stöðva innvortis blæðingar. Starfsfólk Pitie-Salpetriere sjúkrahússins gaf prinsessunni hjartahnoð á meðan framlengdum uppskurði stóð. Á meðan reyndu skurðlæknar að klemma rifna æð við hjarta hennar til að stöðva blæðinguna.

Eftir endurteknar og árángurslausar tilraunir með raflosti sætti sjúkraliðið sig við að hjarta hennar myndi ekki byrja aftur að slá og lífi hennar væri lokið.

Eyraud sagði að ákvörðunin hefði verið sameiginleg þar sem það hefði verið algjörlega ómögulegt að fá starfsemi hjartans af stað eftir svo langan tíma í hjartastoppi.

„Á þeirri stundu var prinsessan úrskurðuð látin," sagði hann.

Kviðdómnum hefur þegar verið sagt frá því að Díana hafi farið í hjartastopp um klukkan 2:10 að staðartíma og hafi látist klukkan fjögur að morgni.

„Ég tel að við höfum gert allt sem mögulega í okkar valdi stóð til að bjarga prinsessunni á viðeigandi hátt," sagði læknirinn.

Fram kom í réttinum í dag að bílslysið hefði orsakað rifna æð við hjartað sem hefði orsakað miklar innvortis blæðingar. Þrýstingur hafi verið á hægra lunga og hjarta.

Hjarta Díönu hætti fyrst að slá þegar hún var tekin út úr flakinu klukkan eitt eftir miðnætti. Hjartahnoði var beitt samstundið og hjartað fór aftur að slá. Þegar hún var á leið á sjúkrahúsið í sjúkrabíl, hrakaði henni aftur og stöðva varð bílinn til að leyfa lækni að sinna henni. Þegar komið var á spítalann var starfsfólk tilbúið að taka við „versta mögulega tilfelli," að sögn svæfingarlæknisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×