Innlent

Ber vott um ofstjórnarsamfélag

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Á góðviðrisdögum vilja flestir sitja utandyra.
Á góðviðrisdögum vilja flestir sitja utandyra.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra segir viðbrögð hins opinbera við útiborðum kaffihúsa í höfuðborginni óskiljanleg. Þau beri vott um ofstjórnarsamfélag. Fyrr í vikunni var veitingamanni á Laugavegi gert að fjarlægja aukaborð sem hann setti út í sól og blíðu. Aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að bregðast verði við kvörtunum.

Eftirlits-og leyfadeild lögregluembættisins á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af af nokkrum veitingamönnum í vikunni og gerði þeim að taka inn borð sem ekki var leyfi fyrir. Að sögn Árna Þórs Sigmundssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns er það hlutverk eftirlitsins að fylgja ramma leyfa og reglugerðar og bregðast við kvörtunum.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra kallar hins vegar eftir umburðarlyndi stjórnvalda.

Hann segir tilfellið sem vísað var til í fréttum Stöðvar 2 á þriðjudagskvöld dæmi um ofstjórnunarsamfélag. Menn eigi að fá að vera í friði brjóti þeir ekki á öðrum. Össur segir fráleitt að stjórnvald sendi umboðsmenn á launum skattgreiðenda til að rýma nokkur borð af gangstéttum á góðviðrisdögum.

Samkvæmt íslenskum lögum er bannað að drekka áfengi á almannafæri. Gangstétt hljóti að teljast almannafæri og því er spurning hvort ekki þurfi að breyta lögunum.

Össur er sammála því og segir að á meðan ekki sé amast við fólki sem drekki fyrir utan Alþingi alla daga, eigi ekki að amast við hinum sem séu engum til ama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×