Erlent

Marglyttur útrýmdu laxeldi á Norður Írlandi

Milljónir marglyttna lögðu laxeldisstöð á Norður Írlandi í rúst í síðustu viku. Allir laxarnir í stöðinni drápust þegar marglytturnar réðust á fiskana sem gátu sig hvergi hreyft í kvíunum. 100 þúsund laxar drápust og er tapið talið nema hundruðum milljóna króna.

Marglytturnar voru í þéttri torfu, sem talin er hafa verið 25 ferkílómetrar að flatarmáli og tíu metrar á þykkt. Framkvæmdastjóri fiskeldisins segir að starfsmenn hafi reynt að bjarga fiskinum en að bátar þeirra hafi einfaldlega setið fastir í marglyttusúpunni. „Þetta var ótrúlegt, sjórinn var gjörsamlega rauður og við gátum ekkert gert."

Þessi tegund marglytta hefur lengi gert baðstrandagestum á Miðjarðarhafinu gramt í geði en þær hafa sjaldan fundist þetta norðarlega áður. Vísindamenn telja ástæðuna mega rekja til hlýnun sjávar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×