Innlent

Veraldarvinir dæmdir til að greiða umsamin laun

Oscar Mauricio Uscategui vann í gær mál sem hann höfðaði til að fá næstum tveggja ára laun greidd frá Veraldarvinum. Hann starfar nú fyrir önnur sjálfboðaliðasamtök hér á landi.
Oscar Mauricio Uscategui vann í gær mál sem hann höfðaði til að fá næstum tveggja ára laun greidd frá Veraldarvinum. Hann starfar nú fyrir önnur sjálfboðaliðasamtök hér á landi. MYND/Rósa

Sjálfboðaliðasamtökin Veraldarvinir voru í gær dæmd til að greiða fyrrverandi starfsmanni laun fyrir tæplega tveggja ára vinnu, samtals 5,7 milljónir króna auk dráttarvaxta og málskostnaðar.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að framkvæmdastjóri samtakanna hafi vísvitandi blekkt starfsmanninn. Framkvæmdastjórinn ætlar að áfrýja dóminum til Hæstaréttar.

Veraldarvinir eru frjáls félagasamtök sem byggja starfsemi sína á sjálfboðaliðum sem koma hingað til lands til að vinna að verkefnum á borð við skógrækt og hreinsun á strandlengjum landsins.

Umræddur starfsmaður er frá Kólumbíu og kom hingað til lands sem sjálfboðaliði Veraldarvina árið 2003. Hann kom aftur hingað til lands árið 2004 og hóf störf hjá Veraldarvinum 15. febrúar 2004. Hann hætti störfum 24. október 2005 þegar honum þótti ljóst að hann fengi ekki greitt frá samtökunum. Maðurinn stefndi í framhaldinu Veraldarvinum, sem og framkvæmdastjóra samtakanna, Þórarni Ívarssyni.

Þórarinn hélt því fram fyrir dómi að maðurinn hafi verið sjálfboðaliði. Dómurinn taldi það fráleitt, enda hafi Þórarinn sjálfur skrifað yfirlýsingu þar sem fram hafi komið að maðurinn hafi verið starfsmaður samtakanna og launakjör hans gefin upp. Einnig vísar dómurinn í fjölmörg tölvubréf frá Þórarni sem sýni svo ekki verði um villst að maðurinn hafi verið starfsmaður samtakanna.

Samið var við starfsmanninn um að hann fengi hlutdeild í húsnæði sem Veraldarvinir keyptu í stað launa, en þegar hann krafðist greiðslu var henni hafnað.

„Framganga stefnda, Þórarins, verður ekki skýrð á annan hátt en að hann hafi vísvitandi verið að beita stefnanda blekkingum þegar hann réði hann til starfa með loforðum um greiðslu sem síðan kom í ljós að hann ætlaði ekki að standa við,“ segir í dómi héraðsdóms.

Veraldarvinir byggðu kröfu sína um sýknu meðal annars á því að maðurinn hafi ekki getað verið starfsmaður því hann hafi ekki haft atvinnuleyfi hér á landi. Dómurinn benti hins vegar á að einstaklingur geti ekki sótt um slíkt leyfi, og verði það að vinnuveitandi sinni ekki þeirri skyldu ekki ástæða til að sýkna Veraldarvini.

Starfsmaðurinn krafðist ógreiddra launa og féllst dómurinn á kröfuna, utan við kröfur um lífeyrissjóðsgreiðslur. Voru því Veraldarvinir og framkvæmdastjórinn dæmd til að greiða starfsmanninum fyrrverandi um 5,7 milljónir króna, auk 700 þúsund króna málskostnaðar.


Tengdar fréttir

Hyggst áfrýja

„Dómur héraðsdóms er rangur og honum verður áfrýjað,“ segir Þórarinn Ívarsson, framkvæmdastjóri Veraldarvina. „Niðurstaðan er röng, við teljum okkur ekki eiga að greiða í samræmi við dóminn, það er alveg á hreinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×