Viðskipti erlent

Óbreyttir stýrivextir í Japan

Seðlabanki Japans hefur ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 0,25 prósentum. Þetta er þvert á væntingar greinenda, sem töldu líkur á stýrivaxtahækkun. Stýrivextir voru síðast hækkaðir í Japan í júlí í fyrra eftir viðvarandi núllvaxtastefnu.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að þrátt fyrir ákvörðunina hafi ekki verið einhugur innan bankastjórnarinnar um hana þar sem sex voru fylgjandi óbreyttum vöxtum en þrír fylgjandi breytingu á þeim. Fyrir síðasta vaxtaákvörðunarfund bankans voru hins vegar allir níu stjórnarmennirnir fylgjandi því að halda stýrivöxtunum óbreyttum í fjórðungi úr prósenti.

Greinendur töldu mestar líkur á hækkun vaxtanna þar sem efnahagslífið hafi verið í uppsveiflu, atvinnuleysi að minnka og bjartsýni neytenda að aukast miðað við árið á undan.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×