Erlent

Ætlar að deyja með reisn

Þrítug bresk kona berst nú fyrir því að læknar í Bretlandi veiti henni meðferð sem mun draga hana til dauða. Hún þjáist af tveimur alvarlegum sjúkdómum og læknar segja hana ekki lifa út árið. Sjálf segist hún vilja ráða brottfarartíma sínum og deyja með reisn.

Kelly Taylor þjáist af Eisenmenger heilkenni sem leggst á hjarta og lungu sjúklinga. Auk þess er hún illa haldin af Klippel-Feil heilkenni sem er medfæddur samruni hálsliðbola. Kelly finnur fyrir stöðugum sársauka. Eina meðferðin sem gæti skilað árangri er hjarta- og lungnaígræðsla en læknar segja hana of veikburða til að þola jafn umfangsmikla aðgerð. Ekkert sé því hægt að gera og læknar óttast að hún lifi ekki út árið. Í gær lögðu lögfræðingar hennar fram kröfu um að læknar veiti henni meðferð sem mun draga hana til dauða.

Kelly segir að hún vilji ekki frekari umönnun, hún vilji standa fast á sjálfstæði sínu. Hún sé orðin þreytt á sjúkdómum sínum og nóg sé komið. Kelly vill að læknar auki töluvert við morfínskammt sinn til að linna þjáningarnnar. Það eitt gæti orðið henni umsvifalaust að bana, en ef ekki þá fellur hún í dá. Þá verður henni ekki veitt næring samkvæmt eigin fyrirmælum og mun það á endanum draga hana til dauða.

Læknar í Bretlandi segja þetta sama og líknardráp og neita að veita meðferðina. Richard Stein, lögfræðingur Kellyar, segir það brjóta gegn mannréttindum hennar. Hún þjáist mikið. Hann segir mestu skipta að mál hennar fari með hraði í gegnum kerfið svo hún þurfi ekki að þjást mikið lengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×