Erlent

Hvalaverndarsinnar mættu ekki

Nær helmingur aðildarþjóða Alþjóðahvalveiðiráðsins situr ekki aukafund þess í Japan. Þar á að reyna að bæta ákvarðanatökuferli innan ráðsins. Á sama tíma harðna átök verndarsinna og japanska flotans í Suður-Íshafi.

Ráðstefnunni í Tokyo er ætlað að höggva á hnútinn í Alþjóðahvalveiðiráðinu. Þrjá fjórðu atkvæða þarf til að fá í gegn breytingar á samþykktum ráðsins og eins og sakir standa geta því hvorki hvalveiðisinnar né þeir sem vilja vernda hvali komið málum sínum í gegn.

Stefán Ásmundsson, skrifstofustjóri hjá sjávarútvegsráðuneytinu, er formaður íslensku sendinefndarinnar á fundinum. Hann segir ráðið hafa verið klofið um nokkurt skeið. Hann segir fundinn tilraun til að bæta ástandið. Það verði þó ekkert tímamóta samkomulag gert í ljósi þess að stór hluti aðildarríkjanna hafi ekki sent fulltrúa. Ástandið í ráðinu verði því óbreytt þrátt fyrir þennan fund. Næsti ársfundur Alþjóðahvalveiðiráðsins verður í Anchorage í Alaska í maí.

En á meðan reynt er að semja um breytta skipan innan hvalveiðiráðsins hafa átök magnast milli verndarsamtakanna Sea Shepherd og japanska hvalveiðiflotans í Suður-Íshafi. Fyrir helgi helltu Sea Shepherd-liðar sýru á japanskt hvalveiðiskip og í gær sigldu þeir á annað. Gat kom á bæði hvalveiðiskipið og skip Sea Shepherd. Skipstjóri annars tveggja skipa Sea Shepherd er Paul Watson en hann er Íslendingum kunnur fyrir að hafa í nóvember 1986 sökkt hvalveiðiskipunum Hvalur sex og Hvalur sjö í Reykjavíkurhöfn og unnið skemmdir á Hvalstöðinni í Hvalfirði. Watson var fangelsaður í stuttan tíma þegar hann kom til landsins í janúar 1988 en síðan vísað úr landi.

Sea Shepherd ætla ekki að láta þar við sitja og hótar því að halda áfram að sigla á japönsk hvalveiðiskip. Samtökin ætli að stöðva hvalveiðar Japana, en þeir stefna að því að veiða 350 hrefnur í vísindaskyni í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×