Erlent

Dauðvona maður vann milljón dollara

Wayne Schenk, 51 árs, finnst hann ekki vera mjög heppinn maður þrátt fyrir að hafa unnið milljón dollara, eða um 68 milljónir íslenskra króna, í skafmiðahappadrætti New York ríkis. Hann greindist nefnilega með banvænt krabbamein aðeins fimm vikum áður.

Schenk hefur biðlað til þeirra sem standa að happadrættinu um að borga honum þessar 68 milljónir í einu. Forsvarsmenn happadrættisins segja það ekki vera hægt. Peningana ætlar hann sér að nota í sérhæfða krabbameinsmeðferð. Susan Miller, talsmaður happadrættisins, sagði „Við höfum mikla samúð með honum en við verðum að fylgja lögum og reglum. Við erum tilbúin að flýta pappírsvinnunni ef hann getur samið við banka um að veita honum lán.“ Fyrirtækið segir að það verði að greiða honum 50 þúsund dollara á hverju ári í 20 ár eða gefa honum 400 þúsund dollara í einu. Ef hann tæki 400 þúsund dollarana, myndi hann þurfa að borga helming þeirra í skatt.

Meðferðin sem Schenk ætlar sér í kostar um hálfa milljón dollara. Schenk hefur sett sig í samband við þingmann sem ætlar að leggja fram frumvarp um að happadrætti geti borgað út vinninga í heilu lagi við sérstakar aðstæður. Það er bara ekki víst að Schenk lifi nógu lengi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×