Innlent

Frá afturvirkri stefnubreytingu í stóriðjumálum til framvirkrar þjóðarsáttar

Iðnaðarráðherra var sakaður um að misnota orðið þjóðarsátt í kynningu á frumvarpi um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Ráðherrann mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi í morgun. Vinstri grænir óskuðu eftir tvöföldum ræðutíma við fyrstu umræðu málsins vegna mikilvægis þess.

Jón Sigurðsson segir að með frumvarpinu sem kynnt var á mánudag séu mörkuð tímamót með upptöku auðlindagjalds og stefnt að víðtækri þjóðarsátt. Nú sem fyrr stefni íslensk stjórnvöld að ábyrgri nýtingu auðlinda með fullri aðgát.

Jóhann Ársælsson þingmaður Samfylkingar sagði allt of langt gengið að tala um víðtæka þjóðarsátt enda tæki nefndin í engu á þeim ágreiningsmálum sem væru uppi til að mynda vegna stóriðju.

Í sama streng tók Steingrímur J. Sigfússon þingmaður vinstri grænna og sagði ráðherrann misnota og afbaka orðið þjóðarsátt. Öllum stærstu deilu og ágreiningsefnunum væri skotið á frest. Frumvarpið breytti engu um stóriðjuáformin næstu árin. Iðnaðarráðherra hefði unnið sér það til frægðar í sumar að boða afturvirka stefnubreytingu Framsóknarflokksins í stóriðjumálum. Nú boðaði hann framvirka þjóðarsátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×