Erlent

Demókratar á móti fjölgun hermanna í Írak

Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeild bandaríska þingsins, leiddi umræðurnar í dag.
Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeild bandaríska þingsins, leiddi umræðurnar í dag. MYND/AP

Demókratar í fulltrúadeild bandaríska þingsins hófu í dag umræður um fjölgun hermanna í Írak. Þeir segja að almenningur í Bandaríkjunum hafi misst trúna á stríðið á meðan repúblikanar vara við því að grafa undan stríðinu gegn hryðjuverkum. Umræðurnar verða í þrjá daga og snúast þær um tillögu sem gagnrýnir harðlega fjölgun hermanna í Írak.

Þó svo tillagan verði samþykkt er hún ekki bindandi fyrir George W. Bush, forseta Bandaríkjanna. Engu að síður yrði um stórt áfall að ræða fyrir fylgjendur stríðsins. Í umræðunum sögðu repúblikanar að það væri miklu meira í húfi en bara Írak. Að kalla hermennina heim myndi gefa Íran tækifæri á að bæta stöðu sína og gera Ísrael að auðveldu skotmarki. Þeir bættu því við að hryðjuverkamenn myndu telja það sem sigur. Demókratar bentu á móti á að repúblikanar væru að reyna að draga athyglina frá stríðinu í Írak. Það hefur nú staðið í nærri fjögur ár og rúmlega 3.100 bandarískir hermenn hafa þar látið lífið.

Búist er við því að tillagan verði samþykkt en hún nýtur stuðnings nær allra demókrata og einhverra repúblikana í fulltrúadeildinni. Leiðtogi demókrata í öldungadeild bandaríska þingsins hefur lýst því yfir að ef tillagan verði samþykkt muni hann reyna að koma henni í gegn í öldungadeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×