Viðskipti erlent

Thai Airways fær afslátt hjá Airbus

A380 risaþota frá Airbus
A380 risaþota frá Airbus
Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus hefur ákveðið að veita taílenska flugfélaginu Thai Airways afslátt á átta A330 farþegaþotum frá Airbus. Ástæðan eru tafir á afhendingu A380 risaþotanna, sem er tveimur árum á eftir áætlun. Thai Airways hafði pantað sex risaþotur frá Airbus en hótaði að draga kaupin til baka ef flugvélaframleiðandinn veitti flugfélaginu ekki afslátt.

Flugfélagið átti upphaflega að fá risaþoturnar afhentar eftir tvö ár en allt stefnir nú í að af því verði ekki fyrr en árið 2011.

Tafir á afhendingu A380 risaþotanna hefur sett Airbus í talsverðan vanda. Nokkur flugfélög hafa hótað að hætta við kaup á risaþotunum. Þá hafa nokkur flugfélög dregið kaup á þotunum til baka. Þar á meðal er bandaríska þjónustufyrirtækið FedEx.

Afsláttur flugfélagsins nemur 10 milljónum bandaríkjadölum, jafnvirði 683,4 milljónum íslenskra króna. Hver farþegaþota af gerðinni A330 kostar, að afslættinum meðtöldum, um 90 milljónir bandaríkjadala, rúman 6,1 milljarð íslenskra króna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×