Erlent

Evrópuþingið fordæmir fangaflug

Ein hinna meintu fangaflutningavéla á Reykjavíkurflugvelli.
Ein hinna meintu fangaflutningavéla á Reykjavíkurflugvelli. MYND/Atli Már Gylfason

Evrópuþingið í Strasbourg fordæmdi í dag fangaflug Bandaríkjanna með meinta hryðjuverkamenn og sagði það vera ólöglegt tæki í baráttunni gegn hryðjuverkum. Jafnframt voru ríkisstjórnir og leyniþjónustur Evrópuríkja fordæmdar fyrir að hafa samþykkt þetta athæfi og haldið því leyndu.

Samþykktin byggir á skýrslu rannsóknarnefndar sem rannsakaði þetta flug, sem var á vegum bandarísku leyniþjónustunnar, CIA.

Nokkur átök urðu um þessa samþykkt á Evrópuþinginu. Sósíalistar, frjálslyndir, grænir og vinstri-þingmenn greiddu atkvæði með fordæmingunni. Íhalds-þingmenn sögðu hana einkennast af Bandaríkjahatri og engar ótvíræðar sannanir væru fyrir misgjörðum.

Bandaríkjamenn hafa viðurkennt að hafa flogið með fanga á milli landa, en neita því að hafa sent þá til landa þar sem þeir voru pyntaðir.

Evrópuþingið hefur enga lögsögu í þessu máli, og getur aðeins lagt fram tillögur.

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×