Erlent

Evrópuþingið fordæmir fangaflugið

Evrópuþingið lagði í dag blessun sína yfir skýrslu þar sem ríkisstjórnir allmargra Evrópulanda eru fordæmdar fyrir að hafa veitt bandarísku leyniþjónustunni, CIA, heimildir til að taka þar grunaða hryðjuverkamenn höndum og flytja þá til staða þar sem þeir sættu illri meðferð.

Nefnd á vegum Evrópuþingsins hefur í rúmt ár unnið að rannsókn á ásökunum um flutninga bandarísku leyniþjónustunnar CIA á grunuðum hermdarverkamönnum og illa meðferð á þeim í fangelsum sínum. Óhætt er að segja að hún hafi komist að afdráttarlausri niðurstöðu: Á árunum 2001-2005 voru farnar rúmlega eitt þúsund slíkar fangaflugsferðir um evrópska lofthelgi. Um leynifangelsin svonefndu segir í skýrslunni að vel geti verið að þau hafi verið rekin í herstöðvum í Evrópu, en engar óyggjandi sönnur eru þó færðar á það. Þá eru ríkisstjórnir landa á borð við Ítalíu, Þýskalands og Bretlands gagnrýndar harðlega fyrir að hafa heimilað slíka flutninga og þær jafnframt átaldar fyrir skort á samvinnu við rannsókn málsins.

Miklar deilur spunnust um málið á þinginu í morgun þar sem hægrimönnum þótti orðalag skýrslunnar allt of sterkt án þess að fullgildar sannanir lægju að baki ásökununum sem þar koma fram.

Þrátt fyrir að orðalagi skýrslunnar hafi verið breytt lítillega náðust litlar sættir og því var skýrslan samþykkt með aðeins 74 atkvæða mun, 382 greiddu atkvæði með henni en 256 á móti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×