Innlent

Skemmdarverkin í Hafnarfirði upplýst

Þrír piltar, 15 til 17 ára, voru handteknir fyrr í dag en þeir voru grunaðir um fjölda skemmdarverka í og við Hafnarfjörð síðastliðna nótt. Ljóst er að tjónið hleypur á milljónum. Piltarnir viðurkenndu brot sín við yfirheyrslur í kvöld og telst málið nú upplýst að fullu. Þeir eru nú frjálsir ferða sinna.

Skemmdarvargarnir fóru þá um svæði Hestamannafélagsins Sörla, iðnaðarhverfi við Íshellu og víðar. Brotnar voru rúður í að minnsta kosti þrjátíu bílum og margir þeirra rispaðir og beyglaðir að auki. Einnig var brotin rúða í heimahúsi og vinnuskúr en ekki er ljóst hvort búið er að tilkynna öll skemmdarverk sem voru unnin í Hafnarfirði í nótt. Skemmdarvargarnir voru líka grunaðir um að hafa stolið bíl sem sást á vettvangi. Fyrrnefndir piltar hafa áður komið við sögu hjá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×