Tónlist

Amen frá Trössum komin út

Þungarokksveitin Trassar hefur gefið út sína fyrstu plötu.
Þungarokksveitin Trassar hefur gefið út sína fyrstu plötu.

Þungarokksveitin Trassar hefur gefið út sína fyrstu plötu, Amen. Trassar var stofnuð fyrir tuttugu árum og telst því vera ein fyrsta þungarokksveit landsins.

Eftir fjórtán ára hlé tók sveitin upp þráðinn fyrir sex árum og er afraksturinn nú kominn út. „Þetta er hetjumetall,“ segir gítarleikarinn Björn Þór Jóhannsson og hlær. „Þetta er nokkuð fjölbreytt annars og við spilum það sem okkur finnst flott.“

Trassar tóku þrisvar þátt í Músíktilraunum Tónabæjar á árunum 1989 til 1991 og lenti í öðru sæti 1991 á eftir dauðarokk­sveitinni Infusoria, sem síðar breytti nafni sínu í Sororicide.

Tvö lög á nýju plötunni voru samin rétt eftir að Trassar hættu störfum fyrst og tvö til viðbótar eru gömul. Afgangur­inn er splunkunýr og eru textarnir allir á íslensku. Eins og umslag plötunnar gefur til kynna fær Bandaríkjastjórn rækilega á baukinn á plötunni, enda Björn Þór og félagar í Trössum gamlir pönkarar. Þeim til halds og trausts á plötunni voru trommari Ampop, Jón Geir Jóhannsson, og Ólafur Árni Bjarnason óperusöngvari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×