Erlent

Neyðarstjórn Palestínu tekin við völdum

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Neyðarstjórn tók við völdum í Palestínu í dag í andstöðu við Hamassamtökin sem eru með meirihluta á þingi. Mahmoud Abbas sniðgekk þannig ákvæði í stjórnarskrá sem takmarkar völd forsætisráðherrans. Ísraelar fagna neyðarstjórninni og segja hana boða nýtt upphaf friðarumleitana.

Neyðarstjórnin tók við völdum við hátíðlega athöfn Í Ramallah á Vesturbakkanum í morgun. Mahmoud Abbas forseti hafði gefið út tilskiptun um að ákvæði sem takmarkar völd forsætisráðherrans í stjórnarskrá yrði sniðgengið. Þannig gerði hann nýjum forsætisráðherra, Salam Fayyad kleyft að koma nýrri ríkisstjórn á fót án samþykkis Hamas liða sem fara með meirihluta á þinginu.

Ísraelar og Bandaríkjamenn fagna nýrri ríkisstjórn og segja hana boða nýtt upphaf friðarumleitana. Fayyad forsætisráðherra var áður fjármálaráðherra og starfsmaður Alþjóðabankans. Hann er virtur í alþjóðasamfélaginu fyrir tilraunir til að enda spillingu og auka gegnsæi.

Eftir setningu stjórnarinnar lagði Fayyad áherslu á að koma á einingu milli Palestínumanna eftir blóðug átök síðustu vikna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×