Erlent

Aftökunni var næstum frestað

Litlu munaði að aftökunni á Saddam Hussein yrði frestað vegna framkomu böðlanna í hans garð og hafa írösk stjórnvöld fyrirskipað rannsókn á málinu. Óttast er að átök trúarhópa muni magnast vegna þessa en aldrei hafa jafnmargir borgarar látið lífið vegna átaka í Írak og í síðasta mánuði.

Í skýrslu íraska innanríkisráðuneytisins kemur fram að 1.930 borgarar létu lífið í ofbeldisverkum í desember 2006, fjórfalt fleiri en í janúar sama ár. Flestir eru reyndar sammála um að þetta mat sé afar hóflegt, mannfallið er líklega mun meira. Hver sem fjöldinn er, er ljóst að ástandið fer stöðugt versnandi og stigvaxandi átök trúarhópa er orsökin. Þau eru einmitt ein ástæða rannsóknar stjórnvalda sem beinist bæði að hvernig á því standi að sjálf aftakan var mynduð þrátt fyrir bann en einnig að framkomunni sem böðlarnir sýndu Saddam á dauðastundinni þegar þeir formæltu honum og ákölluðu svo sjíaklerkinn Muqtada al-Sadr.

Aftakan og myndirnar af henni hafi vakið upp hörð viðbrögð, bæði í Írak og í nágrannalöndunum. Í gær tók Raghad, dóttir Saddams, þátt í mótmælum í Amman í Jórdaníu, og í Samarra í Írak brutust súnníar inn í rústir gullnu moskunnar, eins helgasta vés sjía, og létu þar öllum illum látum. Sú uppákoma er sögð til marks um stigmagnandi ófrið á milli sjía og súnnía. Annars þykja aftökur í Mið-Austurlöndum sjaldnast tiltökumál. Mörg þeirra eru hópi þeirra 69 ríkja heimsins þar sem fólk er tekið af lífi fyrir hefðbundna glæpi. Í 11 löndum er dauðarefsingum beitt í undantekningartilvikum og önnur 29 hafa ekki gert slíkt í að minnsta kosti áratug. Í 88 löndum eru aftökur svo bannaðar með öllu.

Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu lýsti því yfir í dag að hann myndi beita sér fyrir alþjóðlegu banni gegn dauðarefsingum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, en Ítalir tóku sæti í öryggisráðinu nú um áramótin. Nýr framkvæmdastjóri samtakanna, Ban Ki-Moon, sagði á sínum fyrsta starfsdegi í dag að ákvörðun um slíkt ætti að vera í höndum hvers og eins aðildarríkis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×