Innlent

Læknar meta aðstæður vistmanna

Læknar og sérfræðingar hafa verið fengnir til að skoða aðstæður vistmanna í Byrginu. Reykjavíkurborg, eins og ríkið, bíður niðurstöðu Ríkisendurskoðunar um fjármál Byrgisins áður en ákvörðun verður tekin um frekari styrki.

Ekki hefur náðst í forstöðumann Byrgisins í dag en samkvæmt heimildum fréttastofu hafa vistmenn verið að snúa til baka að Efri Brú eftir jólafrí. Eins og áður hefur komið fram hafa greiðslur ríkisins til Byrgisins verið frystar að tillögu Ríkisendurskoðunar, þar til niðurstaða fæst í skoðun á fjármálum líknarfélagsins. Samkvæmt forstöðumanni Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar hyggjast menn þar á bæ einnig bíða átekta en Byrgið fékk röska þrjár og hálfa milljón frá borginni á síðasta ári. Meirihluti vistmanna í Byrginu eru á framfæri Reykjavíkurborgar og hefur borgin milligöngu um að greiða dvalargjald þeirra, 58 þúsund krónur, beint til Byrgisins og ekki hefur verið hróflað við þeim greiðslum. Þá hefur félagsmálaráðuneytið farið þess á leit við lækna og ýmsa fleiri sérfræðinga á sviði heilbrigðis- og félagsmála að þeir meti aðstæður þeirra einstaklinga sem dvelja í Byrginu. Fleiri kærur hafa ekki borist lögreglu en ein kona kærði Guðmund í Byrginu skömmu fyrir jól. Að sögn Harðar Jóhannessonar yfirlögregluþjóns í Reykjavík verður sú kæra líklega rannsökuð hjá lögreglunni á Selfossi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×