Erlent

Fyrsta konan formaður sænska Jafnaðarmannaflokksins

Mona Sahlin var í dag kosin formaður sænska Jafnaðarmannaflokksins, fyrst kvenna í 118 ára sögu flokksins. Formaður Samfylkingarinnar ávarpaði aukalandsfund flokksins í Stokkhólmi í dag og sagði það sögulegt að konur leiddu nú jafnaðarmenn í þremur Norðurlandanna.

Það var þakklátur Göran Persson sem kvaddi flokksmenn og lét af leiðtogaembætti sænskra jafnaðarmanna í dag. Hann ákvað að víkja skömmu eftir að flokkurinn tapaði í þingkosningum í fyrra. Mona Sahlin var sjálfkjörinn formaður.

Hún sagðist finna fyrir miklu stolti yfir að vera fyrsta konan sem yrði formaður flokksins. Henni liði eins og flokksmenn hefðu látið hana verða fyrstu konuna sem færi yfir þennan þröskuld og hún lofaði því að loka ekki dyrunum á eftir sér. Sahlin hefur sagst leggja áherslu á þrjá málaflokka: loftslagsmál, velferðarkerfið og atvinnumál.

Konur eru nú í fyrsta sinn leiðtogar jafnaðarmanna í þremur Norðurlandanna. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Helle Thorning Schmidt, leiðtogi danskra jafnaðarmanna, fögnuðu með Sahlin í dag. Ingibjörg Sólrun sagði þetta tímamót í sögu sænskra jafnaðarmanna.

Hún sagði þetta ef til vill ekki koma á óvart í sjálfu sér því á hinum Norðurlöndunum væri gjarnan litið til Svíþjóðar sem fyrirmyndarþjóðfélags með tilliti til jafnréttismála. Dagurinn í dag væri stór dagur fyrir jafnréttisbaráttuna og lýðræðið.

Sahlin hefur verið nokkuð umdeild en hún sagði af sér sem ráðherra 1995 eftir að upp komst að hún hefði notað opinbert greiðslukort í eigin þágu. Sahlin sneri aftur í sænsk stjórnmál þremur árum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×