Fótbolti

"Kloni" tryggði Bayern sigur

Luca Toni fagnar sigurmarki sínu fyrir Bayern í gær
Luca Toni fagnar sigurmarki sínu fyrir Bayern í gær NordicPhotos/GettyImages

Bayern Munchen vann í gær mikilvægan 1-0 sigur á Bayer Leverkusen í toppslag þýsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu. Það var Ítalinn Luca Toni sem skoraði sigurmarkið skömmu fyrir hlé eftir sendingu frá Miroslav Klose.

Þetta var sjötta mark Toni á leiktíðinni og hafa þeir Toni og Klose nú gert 13 mörk á milli sín í deildinni - meira en öll nema tvö lið í deildinni hafa gert samanlagt. Þýsku blöðin hafa verið mjög hrifin af sóknardúett Bayern sem þau hafa gefið nafnið "Kloni."

Bayern hefur hlotið 20 stig úr 8 leikjum í deildinni en Leverkusen er féll úr öðru í það fjórða eftir tapið. Bayern hefur fjögur stig í forskot á næsta lið sem er Schalke, en þetta eru einu tvö taplausu liðin í Þýskalandi. Schalke fór í annað sætið með sigri á Hertha 1-0 og Karlsruhe er óvænt í þriðja sæti eftir 3-1 sigur á Dortmund.

Meistarar Stuttgart töpuðu 2-1 fyrir Hansa Rostock og var það fjórði tapleikur liðsins í röð á útivelli. Liðið á næst leik gegn Barcelona í Meistaradeildinni á þriðjudaginn.

Annars má segja að lið Werder Bremen hafi verið lið helgarinnar í úrvalsdeildinni eftir ótrúlegan 8-1 sigur sinn á Bielefeld í gær. Sigurinn fleytti liðinu í fimmta sæti deildarinnar þar sem þeir Hugo Almeida og Boubacar Sanogo skoruðu tvívegis og Peter Niemeyer, Per Mertesacker, Markus Rosenberg og Diego komust einnig á blað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×