Erlent

Kárahnjúkavirkjun mótmælt í Lundúnum í dag

Kárahnjúkavirkjun var mótmælt með sérstökum hætti í Lundúnum í dag. Mótmælendur frá ýmsum löndum klifruðu upp á Sánkti Pálskirkju þar í borg og Tate Modern listasafnið til að vekja athygli á framkvæmdum á Íslandi.

Það var klukkan ellefu í dag að staðartíma sem mótmælendur hvaðaæva úr heiminum klifruðu upp á byggingarnar tvær samtímis og sátu þar í tæpar tvær klukkustundi. Samkvæmt heimildum fréttastofu voru mótmælendur ekki handteknir vegna tiltækisins en það hefur þó ekki fengist endanlega staðfest.

Það voru náttúruverndarsamtökin Saving Iceland sem stóðu að mótmælaaðgerðunum. Þau vildu með þessu vekja athygli á framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun sem þau vilja að verði stöðvaðar. Einnig var með þessu verið að mótmæla svipuðu framkvæmdum á Trínídad og Tóbagó.

Samtökin hafa áður mótmælt í Lundúnum, þar á meðal í febrúar í fyrra fyrir utan sendiráð Íslands þar í borg. Einnig var mótmælt á Sloan-torgi í Lundúnum í október síðastliðnum. Þá var farið undirskriftarlista gegn framkvæmdunum í sendiráðið en starfsmenn þar neituðu að taka við honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×