Erlent

Handtekinn fyrir hengingarmyndir

Maðurinn sem tók myndirnar af aftöku Saddams Hussein, og birti á netinu, hefur verið handtekinn. Ekki hefur verið upplýst hvað hann heitir, en hann mun vera háttsettur íraskur embættismaður.

Stjórnvöld í Írak létu mynda aftökuna og hún var sýnd í íraska sjónvarpinu. Þar var hún hljóðlaus og lauk áður en fallhlerinn var opnaður.

Myndbandið sem sett var á netið var hinsvegar með hljóði og þar mátti heyra Saddam skiptast á skammaryrðum bæði við böðla sína og vitni. Þær myndir voru að öllum líkindum teknar á farsíma og hafa vakið hörð viðbrögð um allan heim.

Sextán íraskir embættismenn voru viðstaddir aftökuna ásamt böðlunum þremur. Bannað var að taka myndir og var talið að allir farsímar hefðu verið gerðir upptækir áður en aftakan fór fram. Annað kom í ljós, en ekki er vitað fyrir hvað myndatökumaðurinn verður ákærður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×