Körfubolti

Iverson sendur í bað

Iverson var sendur í bað þegar rúm mínúta var eftir af leiknum í nótt
Iverson var sendur í bað þegar rúm mínúta var eftir af leiknum í nótt NordicPhotos/GettyImages

Allen Iverson náði sér aldrei á strik í fyrsta leik sínum gegn sínum gömlu félögum í Philadelphia í nótt þegar Denver lá heima fyrir botnliðinu 108-97. Iverson skoraði 30 stig og gaf 9 stoðsendingar, en hitti illa, tapaði 7 boltum og var sendur í bað í lokin fyrir að brúka munn við dómara.

Iverson lét hörð orð falla um forráðamenn Philadelphia fyrir leikinn og sagði dómarann hafa lagt sig í einelti í leiknum. Kyle Korver skoraði 26 stig fyrir Philadelphia og Andre Miller skoraði 17 stig og gaf 10 stoðsendingar á gamla heimavelli sínum. Leikurinn var sýndur á NBA TV í stað viðureignar Chicago og Phoenix, en þessu var breytt á síðustu stundu.

Cleveland vann góðan sigur á San Antonio á heimavelli sínum 82-78. LeBron James skoraði 19 stig fyrir Cleveland en Tony Parker var með 26 fyrir San Antonio.

Orlando lagði LA Clippers 91-86. Corey Magette skoraði 20 stig fyrir Clippers en Jameer Nelson skoraði 29 stig fyrir Orlando.

Golden State vann útisigur á New Orleans 97-89. Matt Barnes og Baron Davis skoruðu 29 stig hvor fyrir Golden State en Rasual Butler skoraði 30 stig fyrir New Orleans.

Phoenix notaði góðan endasprett til að leggja Chicago á útivelli 97-96. Amare Stoudemire skoraði 24 stig og hirti 18 fráköst fyrir Phoenix en Ben Gordon skoraði 41 stig fyrir Chicago.

Dallas burstaði Seattle 112-88 þar sem Dirk Nowitzki skoraði 31 stig og hirti 15 fráköst fyrir Dallas en Ray Allen skoraði 27 stig fyrir Seattle.

Loks vann Sacramento sigur á New York á heimavelli 112-100 þar sem Ron Artest skoraði 29 stig fyrir Sacramento en Jamal Crawford skoraði 28 fyrir New York.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×