Erlent

Ný brú mili Danmerkur og Svíþjóðar

Eyrarsundsbrúin.
Eyrarsundsbrúin.

Eyrarsundsstofnunin svokallaða, sem sá um byggingu brúarinnar milli Kaupmannahafnar og Malmö vill láta byggja nýja brú milli landanna. Hún á að liggja milli Helsingjaborgar í Svíþjóð og Helsingjaeyrar í Danmörku. Tillaga stofnunarinnar er fram komin vegna þeirra miklu aukningar sem orðið hefur á umferð yfir Eyrarsundsbrúna.

Umferð einkabíla jókst um 16 prósent árið 2006 og fara nú að meðaltali 15.800 einkabílar yfir brúna á hverjum sólarhring.

Fjöldi þeirra sem ferðast yfir brúna til að sækja vinnu jókst um 43 prósent miðað við árið 2005 og ef lestarfarþegar eru reiknaðir með fara um 14.000 manns daglega yfir Eyrarsundsbrúna vegna starfa sinna. Þetta er mikil breyting frá árinu 2001, en þá voru þetta um 4.000 manns.

Álagið á Eyrarsundsbrúnni hefur því aukist mikið og er áætlað að árið 2011 verði sex lestarferðir frá Kaupmannahöfn til Málmeyjar á klukkustund í stað þriggja í dag. Þetta getur haft í för með vandamál við vöruflutninga yfir brúna að mati Niels Paarup-Petersen sérfræðings við Eyrarsundsstofnunina.

Árið 2006 fluttu um 4.400 manns frá Sjálandi í Danmörku til Skánar í Svíþjóð, um 1.400 fluttu frá Skáni til Sjálands. Þorri þeirra sem hafa flust búferlum til Svíþjóðar halda áfram að starfa í Danmörku. Fjöldi lestarfarþega jókst um 17 prósent á síðasta ári og voru þeir um 7,8 milljónir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×