Erlent

Saddam kvaddi bandaríska fangaverði sína kurteislega

Saddam Hussein kvaddi ameríska fangaverði sína kurteislega og þakkaði þeim fyrir hvernig þeir hefðu komið fram við sig, þegar hann var seldur í hendur Íraka, til aftöku. Hann sýndi ótta í smástund, eftir að hann var kominn í hendur landa sinna, en jafnaði sig fljótlega.

Bandaríski hershöfðinginn William Carldwell, sagði að Saddam hafi verið virðulegur í fasi og kurteis, þegar hann kvaddi, eins og hann hafi ávallt verið við bandaríska fangaverði sína þau þrjú ár sem hann var í þeirra vörslu. Caldwell sagði að forsetinn fyrrverandi hafi augljóslega vitað að hann væri að fara til aftöku sinnar. Íraskur embættismaður sagði að fyrst eftir að hann kom í þeirra hendur hafi Saddam sýnt ótta. Sá ótti hafi þó horfið þegar honum var lesinn dómurinn yfir honum og hann gerði sér grein fyrir að hann yrði tekinn af lífi lögum samkvæmt og þyrfti ekki að þola annað ofbeldi.

Bandarískur sjúkraliði sem annaðist Saddam síðustu dagana, sagði að hann hefði verið búinn undir dauða sinn. Hann hefði aldrei kvartað og eytt dögum sínum við skriftir, auk þess sem hann dundaði sér við að rækta plöntur og fóðra fugla.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×