Innlent

Álagningin jókst á síðasta ári

Álagning íslensku olíufélaganna var talsvert meiri á síðasta ári en á árinu 2005, samkvæmt útreikningum Félags íslenskra bifreiðareigenda. Forstjóri Olíufélagsins segir rétt að álagningin hafi verið nokkur á síðari hluta ársins en bendir á að um miðbik þess hafi félagið tekið á sig miklar hækkanir á heimsmarkaðsverði.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur sveiflast mikið á undanförnum misserum. Í júlí á síðasta ári kostaði fatið 78 Bandaríkjadali en í gær fór verðið á því niður fyrir 55 dali. Í slíku ástandi er oft erfitt að átta sig á verðmæti bensínlítrans og það hafa olíufélögin fært sér í nyt að mati Félags íslenskra bifreiðaeiganda. Samkvæmt útreikningum þess var álagning olíufélaganna heldur hærri á síðasta ári en á árinu 2005. Framan af ári var álagningin nokkuð jöfn en þegar dró úr verðhækkunum á heimsmarkaði undir lok síðasta sumars drógu félögin að lækka aftur verðið þar til seint í haust.

Hermann Guðmundsson, forstjóri Olíufélagsins segir útreikninga FÍB rétta svo langt sem þeir ná en til að fá rétta mynd verði að skoða lengra tímabil. Hann bendir auk þess á að þótt framlegðin hafi aukist mikið á seinni hluta ársins tóku olíufélögin á sig stóran hluta hækkana á heimsmarkaðsverði í stað þess að senda íslenskum neytendum allan reikninginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×