Erlent

Indónesiska þotan enn ófundin

Ættingjar farþeganna eru sárir og reiðir yfir seinaganginum.
Ættingjar farþeganna eru sárir og reiðir yfir seinaganginum. MYND/AP

Enn hefur ekkert spurst til Boeing farþegaþotunnar sem fórst með 102 innanborðs í Indónesíu fyrir sex dögum. Þúsundir hermanna og lögreglumanna hafa leitað hennar á jörðu niðri og fjöldi flugvéla. Bandarísk leitarflugvél kom til landsins í dag.

Aldrei var sent neitt neyðarkall frá vélinni, eins og í fyrstu var haldið fram. Í síðustu samskiptum við flugumferðarstjórn sagði flugstjórinn aðeins að órói væri í loftinu. Vélin sást á ratsjá í nokkurn tíma eftir það, að sögn flugmálayfirvalda.

Sé það rétt er með nokkrum ólíkindum að vélin skuli ekki vera fundin. Ratsjáin ætti að gefa nokkuð góða vísbendingu um hvar vélin var, síðast þegar sást til hennar. Upplýsingar yfirvalda hafa raunar verið mjög misvísandi og villandi, til dæmis var sagt nokkrum klukkustundum eftir að vélin hvarf, að flak hennar væri fundið og tólf manns enn á lífi.

Ættingjar þeirra sem fórust með vélinni eru að vonum bæði sárir og reiðir yfir gangi mála.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×