Erlent

Lokað fyrir rússneska olíu til Evrópu

Dælustöð og olíuleiðslur í Hvíta Rússlandi.
Dælustöð og olíuleiðslur í Hvíta Rússlandi. MYND/AP

Evrópusambandið hefur krafið Rússa og Hvít-Rússa um tafarlausar skýringar á því að í nótt var hætt að dæla olíu frá Rússlandi til Póllands og Þýskalands. Leiðslan liggur um Hvíta-Rússland.

Menn vita svo sem ósköp vel að dælingunni var hætt vegna deilu Rússa og Hvít-Rússa um verð á gasi og olíu frá hinum fyrrnefndu til hinna síðarnefndu. Hvít-Rússar voru búnir að hóta því að loka fyrir leiðslurnar ef Rússar féllu ekki frá einhliða ákvörðun sinni um að stórhækka verðið.

Rétt ár er liðið síðan truflun varð á gasflutningi frá Rússlandi til Vestur-Evrópu. Sú gasleiðsla liggur um Úkraínu og Úkraínumenn lokuðu fyrir hana vegna deilna við Rússa um orkuverð. Rússar beita olíu sinni og gasi hiklaust sem pólitísku vopni í samskiptum við nágrannaríkin og Evrópusambandið hefur af því miklar áhyggjur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×